Skoðun

Uppbyggingarhrun

Magnús Jónsson skrifar
Í makríldeilunni svokölluðu er tekist á um skiptingu afla úr þessum stóra fiskistofni. Margt bendir til þess að stærð hans sé stórlega vanmetin, sagði Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur í viðtali í Morgunblaðinu nýlega og magn þeirrar fæðu sem þessi ránfiskur tekur til sín þá einnig. Kannski er hann að éta árlega tugi milljóna tonna úr lífmassa Norður-Atlantshafsins, aðallega ljósátu, rauðátu, svifdýr, sandsíli, trönusíli og jafnvel smáloðnu, síldarseyði og annað fisksmæli. Margir sjómenn líkja þessum fiski við engisprettufár.

Sumir rekja hrun sandsílisstofnsins til stækkunar makrílstofnsins með tilheyrandi keðjuverkun á fugla- og fiskistofnum. Og nú eru menn í óða önn að reyna að byggja alla stofna upp samtímis óháð því hverjir éta hvern! Á t.d. að friða svartfuglinn og kríuna á landi og þorskinn, ýsuna og lúðuna í sjó til þess eins að drepast úr hungri vegna uppbyggingar á makrílstofninum?

Hvenær skyldi koma að því að raunveruleg náttúrufræði verði tekin með í reikninginn þegar sest er við samningaborð um veiðar, nýtingu einstakra stofna og skiptingu þeirra á milli einstakra þjóða? Væri ekki skynsamlegast í stöðunni að veiða eins mikið af makríl og markaður er fyrir áður en hann étur aðra mikilvægari fiskistofna, fuglastofna og jafnvel þjóðina út á gaddinn? Áhrif slíkra makrílveiða á lífríkið yrðu síðan verðugt rannsóknarefni fyrir fiski- og fuglafræðinga.




Skoðun

Sjá meira


×