Skoðun

LSH með bestu sérfræðinga heims í talnalækningum?

Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, sérfræðingur í almennum lyflækningum, heimilislækningum og heilbrigðisstjórnun, ritaði fróðlega grein um það hvernig laun forstjóra hans endurspegla hlutverk eins af lykilstjórnendum heilbrigðiskerfisins.

Lesendum er bent á að meta mikilvægi áhrifaríkrar stjórnunar í heilbrigðiskerfinu í samhengi við þróun heilbrigðismála í framtíðinni og í framhaldi af því endurskipulagningu heilbrigðisþjónustu erlendis. Það sem kemur ekki fram í grein Ófeigs eru breytingar sem gerðar hafa verið á heilbrigðisþjónustu landsmanna. Þessar breytingar fela í sér að aðlaga heilbrigðiskerfið að starfsemi háskólasjúkrahúss.

Aðlögun heilbrigðiskerfisins að starfsemi Nýs Landspítala ohf

Árið 2007 voru gerðar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Ráðherra hefur lýst þessum breytingum í viðtölum undanfarið á þann veg að öll sérhæfð sjúkrahúsþjónusta verði á LSH og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA). Landinu er skipt í heilbrigðisumdæmi með heilbrigðisstofnun sem veitir almenna heilbrigðisþjónustu ásamt heilsugæslu. Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um sameiningar stofnana, og því hvaða starfsemi og þjónusta er í boði á hverjum stað. Kerfisbreytingin er því nokkurskonar tveggja þrepa kerfi sem samanstendur af heilsugæslu og háskólasjúkrahúsunum LSH og FSA og að auki á að byggja upp öflugt kerfi sjúkraflutninga. Þrátt fyrir ítarlega leit get ég ekki fundið fyrirmynd að þessu kerfi í hinum vestræna heimi.

Breytingar með fjárlögum

Breytingar sem hafa orðið á sjúkrahúsþjónustu landsmanna má lesa úr fjárlögum með því að bera saman framlög til sjúkrasviða heilbrigðisstofnana: Árið 2008 fengu 16 sjúkrasvið heilbrigðisstofnana 6,8 milljarða króna úthlutað í fjárlögum. Árið 2012 var þessi tala komin í 4,8 milljarða króna (30% lækkun) og þá hafði þeim fækkað um þrjú með sameiningu stofnana. Sú nýjung var við fjárlagagerð 2011 að fjögur sjúkrahús fengu fjármagn til að reka skurðstofur og það var einungis gert ráð fyrir almennri lyflækningastarfsemi á legudeildum á smærri sjúkrahúsum. Til að gæta jöfnuðar voru legurými "reiknuð" út frá fjölda íbúa og reiknað með að kostnaður sjúkrahúsa væri um 15% hærri en hjúkrunarheimila. Við þetta skertist þjónusta í heimabyggð umtalsvert fyrir um þriðjung íbúa landsins.

Rekstrartölur læknaðar?

Eftirfarandi rekstrartölur eru fengnar úr ársreikningum LSH til samanburðar:

Ÿ 2004 - 27,9 milljarðar króna

Ÿ 2007 – 35,7 milljarðar króna

Ÿ 2008 – 40,3 milljarðar króna

Ÿ 2011 – 42,2 milljarðar króna (S-lyf meðtalin)

Til þess að gera tölur samanburðarhæfar er sjúkrahúslyfjum (S-lyfjum) bætt við rekstrarkostnað ársins 2011, en kostnaður vegna S-lyfja var fluttur til Sjúkratrygginga Íslands árið 2009. Af þessu má sjá að rekstrarkostnaður LSH hefur aukist jafnt og þétt á þessu árabili, en mesta breytingin var þegar heilbrigðislöggjöfinni var breytt árið 2007. Það má deila um aðferðir við útreikninga, en hér er ekki tekið tillit til verðlagsþróunar eða þess hver greiðir fyrir S-lyf sem spítalinn notar. Þessi breyting á rekstrarkostnaði LSH hefur verið kynnt almenningi sem 23% niðurskurður í rekstri spítalans.

Ófeigur bætir um betur og bendir á að „Reksturinn hefur verið skorinn niður um fjórðung eða sem nemur um 9 milljörðum á ári, gróft reiknað." En það þýðir 36 milljarða niðurskurð á þessum fjórum árum sem um ræðir "gróft reiknað"! Til að flækja upplýsingar um rekstrarafkomu LSH kynntu framkvæmdastjóri fjármála, forstjórinn og síðast velferðaráðherra töluna 32 milljarða til sögunnar eftir afturköllun launahækkunar, en það er svokallað "uppsafnað hagræði" undanfarinna fjögurra ára.

Niðurskurður á yfirstandandi fjárlagaári verður skv. útreikningum í grein Ófeigs rúmar 600 milljónir, en í fjárlögum fyrir árið 2012 fékk LSH 36,4 milljarða úthlutaða og nú er lagt til að spítalinn fái 37,8 milljarða fyrir árið 2013, mismunurinn er 1,4 milljarðar.

Má þetta?

Ég þakka Ófeigi að skýra frá umfangsmiklu hlutverki forstjóra LSH, sem einn af lykilstjórnendum heilbrigðiskerfisins. Í framhaldi af því má benda á að fræðiheiminn greinir á um hvort heilbrigðisstarfsfólk sé best til þess fallið að stjórna sjúkrahúsum, sem á meira skylt við rekstur fyrirtækja en meðferð sjúkdóma. Það má nefna hagsmunaárekstra í því samhengi: Læknir gæti lagt meiri áherslu á sína sérgrein við ákvörðunartöku um það hvaða þjónustu á að veita, í hve miklu mæli og hvað hún má kosta, en einnig í sambandi við kennslu, vísindastarf og húsnæði.

Niðurskurður í starfsemi LSH hefur verið mikið í fréttum undanfarin misseri - litlar fréttir um áhrif stórkostlegs niðurskurðar á starfsemina úti á landi og kerfisbreytingarnar frá árinu 2007 eru lítið kynntar.

Það sem vekur mesta furðu er að upplýsingar um rekstrarafkomu LSH eru settar fram með þessum villandi hætti athugasemdalaust – endalaust. Hver er tilgangurinn?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×