Körfubolti

NBA í nótt: Clippers bætti metið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Paul er vinsæll meðal stuðningsmanna LA Clippers.
Chris Paul er vinsæll meðal stuðningsmanna LA Clippers. Mynd/AP
Gengi liðanna frá Los Angeles er sem fyrr ólíkt í NBA-deildinni í körfubolta en alls fóru ellefu leikir fram í nótt.

LA Clippers vann góðan sigur á Dallas á heimavelli, 99-93, og hefur því unnið þrettán heimaleiki í röð. Um félagsmet er að ræða.

Chris Paul var með nítján stig og sextán stoðsendingar fyrir Clippers. Matt Barnes átti einnig góða innkomu af bekknum og skoraði nítján stig. Blake Griffin var með fimmtán stig og þrettán fráköst.

Clippers komst með sigrinum upp fyrir Oklahoma City og í efsta sæti Vesturdeildarinar, en liðið er með bestan árangur allra liða í NBA-deildinni.

LA Lakers tapaði hins vegar sínum fimmta leik í röð, nú fyrir San Antonio, 108-105. Hvorki gengur né rekur hjá Lakers sem er í ellefta sæti Vesturdeildarinnar.

Tony Parker var með 24 stig og Manu Ginobili nítján fyrir San Antonio. Kobe Bryant var stigahæstur hjá Lakers með 27 stig en Metta World Peace var með 23 stig.

Bryant fékk reyndar tækifæri til að tryggja sínum mönnum framlengingu á lokasekúndum leiksins en þriggja stiga skot hans klikkaði.

Boston vann sinn fjórða leik í röð og Oklahoma City vann sömuleiðis. Orlando tapaði hins vegar fyrir Denver og þar með sínum tíunda leik í röð. Liðið hefur reyndar tapað öllum sínum leikjum síðan að Glen Davis meiddist.

Úrslit næturinnar:

Toronto - Philadelphia 90-72

Charlotte - Utah 102-112

Cleveland - Atlanta 99-83

Boston - Phoenix 87-79

Chicago - Milwaukee 96-104

New Orleans - Houston 88-79

San Antonio - LA Lakers 108-105

Oklahoma City - Minnesota 106-84

Denver - Orlando 108-105

LA Clippers - Dallas 99-93

Golden State - Memphis 87-94

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×