Körfubolti

Óvíst hvað Kobe verður lengi frá

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Lakers stumra hér yfir Kobe Bryant.
Leikmenn Lakers stumra hér yfir Kobe Bryant. Mynd / AP
Kobe Bryant tognaði illa á ökkla þegar að LA Lakers tapaði fyrir Atlanta í NBA-deildinni í nótt.

Tímabilið hjá Lakers hefur verið martröð líkust en loksins þegar virtist ætla að birta til skömmu fyrir úrslitakeppni meiddist Bryant.

Lakers komst nýlega upp í áttunda sæti Vesturdeildarinnar en átta efstu lið deildarinnar komast í úrslitakeppnina í vor.

Enn er óvíst hversu lengi Bryant verður frá keppni en hann viðurkenndi eftir leik að hann hafi aldrei fengið jafn slæma tognun á sextán ára ferli sínum.

„Ég geri bara það sem ég þarf að gera," sagði Bryant en Lakers hefur unnið níu af síðustu tólf leikjum sínum. Í lok janúar, þegar staða liðsins var hvað verst, hafði liðið unnið 20 af 46 leikjum alls á tímabilinu.

Bryant meiddist á lokasekúndum leiksins í nótt. Staðan var þá 94-92 og Bryant keyrði upp að körfunni. Skotið geigaði og Bryant lenti illa á ökklanum. Leiknum lauk svo með 96-92 sigri Atlanta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×