Handbolti

Guðjón Valur: Tapaður bolti var eins og sjálfsmark

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Vilhelm
„Þetta var mjög sætur sigur og gríðarlega erfiður. Við vorum að spila við ótrúlega gott lið sem skiptir mjög mikið og spilar mismunandi kerfi eftir því hvaða leikmaður er inni á og þeir fengu hörku skyttu inn í hópinn í dag sem við áttum í erfiðleikum með," sagði Guðjón Valur Sigurðsson sem skoraði 13 mörk fyrir Ísland gegn Slóveníu í dag.

„Það var slen yfir okkur í byrjun. Við vorum seinir til baka en mér fannst þeir leika hröðu miðjuna mjög vel. Þeir voru skynsamir í keyrslunni fram. Þeir voru ekki að reyna að keyra yfir okkur alveg á milljón heldur að var eins og þeir væru að lokka okkur í að skipta og keyra þá. Vörnin stóð ágætlega en þessi hraða miðja og hraðaupphlaupin var það sem skaðaði okkur.

„Þeir refsuðu líka grimmilega þegar við missum boltann. Við vinnum boltann og missum hann og það var eins og skora sjálfsmark. Við hendum boltanum frá okkur þeir skora strax. Við gerðum þeim þetta líka kannski auðvelt fyrir," sagði Guðjón Valur að lokum.

Nánar er rætt við Guðjón Val í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×