Körfubolti

Oladipo ætlar í NBA-nýliðavalið

Victor Oladipo.
Victor Oladipo.
Háskólakörfuboltinn er búinn í ár og nú byrja vangaveltur um hvaða ungstirni ætla sér að fara í nýliðaval NBA-deildarinnar. Margir sterkir leikmenn íhuga að taka slaginn og einn besti leikmaður háskólaboltans í vetur, Victor Oladipo, hefur ákveðið að kveðja Indiana-háskólann.

Oladipo er að klára sitt þriðja ár í skólanum og lætur það duga að sinni. Hann tilkynnti um ákvörðun sína í gær.

"Þetta er búið að vera að brjótast um í mér í nokkurn tíma. Þetta fannst mér vera besta ákvörðunin fyrir mína fjölskyldu," sagði hinn tvítugi Oladipo.

Oladipo er alhliða leikmaður sem er þekktur fyrir að leggja afar hart að sér. Hann skoraði 13,6 stig og tók 6,3 fráköst að meðaltali í vetur. Hann var einnig valinn besti varnarmaðurinn í sinni deild.

Skotnýtingin hjá honum í vetur var stórkostleg eða 59,9 prósent innan teigs. Þriggja stiga nýtingin var 44,1 prósent. Bætti hann leik sinn verulega á milli ára.

Margir, þar á meðal Barack Obama Bandaríkjaforseti, spáðu því að Indiana myndi vinna háskólamótið í ár en liðið féll óvænt úr leik í 16-liða úrslitum.

Indiana-liðið verður mikið breytt næsta vetur miðherjinn stóri Cody Zeller ætlar líklega einnig í nýliðavalið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×