Það vildi þó ekki betur til en að tólf þúsund eintök, af sextán þúsund, enduðu í næsta kjördæmi, það er að segja Norðvesturkjördæmi.
„Þetta uppgötvaðist í morgun,“ útskýrir Stefán Bogi en það var Pósturinn sem átti að dreifa blaðinu. Þegar í ljós kom að það átti eftir að dreifa fjögur þúsund eintökum áttuðu menn sig á mistökunum.
Blaðið, sem prýðir Sigmund Davíð Gunnlaugsson á forsíðu undir fyrirsögninni „Þetta kjördæmi bjó mig til sem pólitíkus“ endaði meðal annars á Ísafirði og á Hvammstanga.
„Það er verið að vinna í því að kalla þetta til baka,“ segir Stefán Bogi en ekki er búið að bera öll blöðin út í hús þó þau hafi verið send í vitlaust kjördæmi. Því er Stefán nokkuð bjartsýnn á endurheimtur, þó staðan skýrist ekki fyrr en í fyrramálið.

Stefán Bogi kvíðir þó ekki að mistök póstsins eigi eftir að hafa mikil áhrif á baráttuna, enda Framsóknarflokkurinn alltaf verið mjög sterkur í Norðausturkjördæmi. „Annars er þetta fyrirmyndarblað og allir íbúar í Vestrinu ættu að hafa gaman af því að lesa það. Það er nú samt frekar hugsað fyrir íbúana í Norðausturkjördæmi,“ segir Stefán Bogi.
Fyrir þá sem geta ekki beðið eftir að fá blaðið inn um lúguna þá er hægt að nálgast það á vef Framsóknarflokksins.