Fangar á Litla Hrauni greiddu atkvæði utan kjörfundar á föstudaginn og komu fulltrúar frá Sýslumanninum á Selfossi í fangelsið.
Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Litla Hrauns, segir að kosningin hafi gengið vel fyrir sig og þátttaka hafi verið góð. Sjötíu og níu fangar eru nú í fangelsinu en nákvæmar tölur um kosningaþátttöku liggja ekki fyrir að svo stöddu.
Síðustu ár hafa fulltrúar frá flokkunum komið á Litla Hraun og kynnt stefnumálin sín. „Það mættu ekki margir á staðinn í ár, það hafa einungis tveir flokkar komið, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Píratar ætluðu að koma en þeir voru víst tvíbókaðir. Dögun hafði samband líka, en kom ekki í síðustu viku.“
Kosið verður til Alþingis á laugardaginn en þó nokkur fjöldi hefur þegar greitt atkvæði utankjörfundar.
Fangar á Litla Hrauni búnir að kjósa
Boði Logason skrifar
