Körfubolti

Curry meiddur en spilaði í sigri Golden State

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hið unga lið Golden State Warriors náði í gærkvöldi að jafna metin gegn San Antonio Spurs í rimmu liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Golden State vann tíu stiga sigur í framlengingu, 97-87, og er staðan í undanúrslitarimmu liðanna í Vesturdeildinni nú jöfn, 2-2. Hvort lið hefur unnið einn heimaleik og einn útileik.

San Antonio var yfir mestallan leikinn en Golden State kom til baka á lokamínútunum og fékk tækifæri til að tryggja sér sigur í lokasókn venjulegs leiktíma. Jarrett Jack klikkaði þá á lokaskotinu.

En það var aldrei nein spurning í framlengingunni. Gestirnir frá San Antonio gátu nánast ekki keypt sér körfu og Golden State nýtti sér það til fullnustu.

Leikstjórnandinn Stephen Curry var eins og svo oft áður frábær í sigri sinna manna. Hann var þó tæpur fyrir leikinn vegna ökklameiðsla en spilaði eftir að hafa fengið góð ráð frá mömmu sinni - á sjálfan mæðradaginn.

„Hún bara minnti mig á að halda áfram að berjast og treysta á stuðning liðsfélaganna,“ sagði Curry eftir leikinn í gær en hann skoraði alls 22 stig auk þess sem hann var með sex fráköst og fjórar stoðsendingar. Hann setti niður fimm þrista í leiknum.

„Ég hélt að hann gæti ekki spilað, miðað við hvernig upphitunin var,“ sagði Jack. „Það var svo ótrúlegt sjá hann hlaupa út um allt á annarri löppinni - hann minnti mig á Isiah Thomas í úrslitaeinvíginu gegn Lakers. Frammistaðan hans á lokakaflanum var mögnuð. Ég trúði ekki eigin augum.“

Stjarna leiksins var þó nýliðinn Harrison Barnes sem ekki byrjaður í skóla þegar að Tim Duncan hjá San Antonio spilaði sinn fyrsta leik í NBA-deildinni. Barnes skoraði 26 stig, sem er persónulegt met, og tók tíu fráköst. Hér fyrir neðan má sjá samantekt á helstu tilþrifum Barnes í leiknum.

Jack var með 24 stig og Andrew Bogut var frábær í vörninni og tók átján fráköst.

Hjá San Antonio voru Tony Parker með sautján stig, Manu Ginobili 21 og Tim Duncan nítján og fimmtán fráköst.

Tveir leikir fara fram í deildinni í kvöld. Chicago tekur á móti Miami og Memphis mætir Oklahoma City.

Neðst í fréttinni má sjá samantekt úr leiknum.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×