Sport

Varði heimsmeistaratitilinn á nýjum hesti

Heimsmeistararnir Sigurður Marínusson og Atli frá Norður-Hvammi.
Heimsmeistararnir Sigurður Marínusson og Atli frá Norður-Hvammi. Mynd/Hestafréttir.is
Sigurður Marínusson tryggði sér Heimsmeistaratitilinn í Gæðingaskeiði í kvöld á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín. Það gerði enginn betur en Sigurður á Atla frá Norður-Hvammi en þeir keppa fyrir Holland.

Sigurður vann einnig heimsmeistaratitilinn á HM í Austurríki fyrir tveimur árum en þá var hann á hestinum Eilimi vom Lindenhof.

Sigurður Marínusson og Atli frá Norður-Hvammi fengu 8,54 í einkunn og unnu öruggan sigur. Hin austuríska Carina Mayerhofer á Frama von St. Oswald varð í 2. sæti með einkunn upp á 8,04 en þriðji var síðan Magnús Skúlason á Hraunar frá Efri-Rauðalæk en hann keppir fyrir Svíþjóð.

Enginn í íslenska landsliðinu var meðal efstu manna í Gæðingaskeiðinu að þessu sinni en efstur varð Sigursteinn Sumarliðason á Skugga frá Hofi en þeir urðu í níunda sæti.

Það er hægt að sjá öll úrslitin inn á Hestafréttum.is eða með því að smella hér. Það er einnig hægt að sjá myndband af nýkrýndum heimsmeistara frá Hestafréttum með því að smella hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×