Golf

Jimenez: 13 ára kylfingar eiga að leika með jafnöldrum sínum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Miguel Angel Jimenez slær úr glompu.
Miguel Angel Jimenez slær úr glompu. Mynd/AFP
Spánverjinn Miguel Angel Jimenez er ekkert sérstaklega hrifinn af því að 13 ára táningur sé að leika með honum á European Masters mótinu sem fram fer á Evrópumótaröðinni um helgina. Jimenez er einn af vinsælustu kylfingum mótaraðarinnar og telur að 13 ára kylfingar eigi ekkert erindi á mótaröð þeirra bestu. Kínverjinn Ye Wo-Cheng, 13 ára, er með keppnisrétt í mótinu.

„13 ára kylfingar eiga að leika á móti jafnöldrum sínum en ekki á mótaröð þar sem meðalaldurinn er 33 ára,“ segir Jimenez. „Það er ekki spurning að styrktaraðilinn vill fá áhuga fjölmiðla á mótinu en ég tel að það sé ekki rétt að gera það með að veita unglingum keppnisrétt inn í mótið. Þeir ættu ekki að vera að ýta of mikið á unga kylfinga, sérstaklega á þessum aldri. Það gæti haft skelfilegar afleiðingar á feril þeirra.“

Jimenez er elsti sigurvegarinn á Evrópumótaröðinni og var 49 ára þegar hann stóð uppi sem sigurvegari á mótaröðinni á síðasta ári. Rætt hefur verið um að setja aldurstakmörk á bestu mótaraðir heims. Saga Guan Tianlang frá Kína frá því á Masters í ár verður líklega lengi í minnum höfð en hann komst í gegnum niðurskurðinn í mótinu, 14 ára gamall.

Ye-Wo-Cheng, 13 ára kylfingurinn í European Masters mótinu, komst ekki í gegnum niðurskurðinn í mótinu og hafnaði í þriðja neðsta sæti eftir að hafa leikið á 78 og 76 höggum. Jimenez er hins vegar í þriðja sætið þegar mótið er hálfnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×