Golf

Birgir Leifur í toppbaráttunni í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birgir Leifur Hafþórsson og Stefán Hilmarsson.
Birgir Leifur Hafþórsson og Stefán Hilmarsson. Mynd/Daníel
Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG og Íslandsmeistari í höggleik í ár, byrjaði vel á Open Blue Green Côtes d'Armor Bretagne golfmótinu í Frakklandi sem stendur hún yfir en hann var annar eftir fyrsta hringinn. Birgir Leifur lék fyrstu 18 holurnar á 65 höggum eða á fimm höggum undir pari.

Birgir Leifur var einu höggi á eftir Ítalanum Andrea Pavan sem lék fyrsta hringinn á 64 höggum en Norðmaðurinn Joakim Mikkelsen lék á 64 höggum eins og Birgir Leifur.

Birgir Leifur lék tólf af átján holunum í gær en kláraði svo hringinn í morgun. Hann fékk tvo fugla á holunum sex í morgun en var með fjóra fugla og einn skolla á fyrstu tólf holunum.

Sigurvegarinn á mótinu fær rétt um 4,5 milljónir kr. í sinn hlut en Brigir Leifur var fyrir mótið í 178. sæti á peningalista Áskorendamótaraðarinnar með 2496 evrur eða rétt rúmlega 400 þúsund íslenskar krónur.

Þetta er fjórða mótið á Áskorendamótaröðinni hjá Birgi Leifi á þessu ári. Hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn á einu móti en náði síðan 29. og 30. sæti á mótum á Spáni og í Tékklandi.

Birgir Leifur fór strax inn á annan hringinn sem klárast seinna í dag. Birgir Leifur þarf að hækka sig um 128 sæti til þess að öðlast takmarkaðann keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta keppnistímabili en því ná fimmtíu efstu menn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×