Körfubolti

Kidd fékk sex milljóna sekt fyrir að „hella" niður | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Kidd, þjálfari Brooklyn Nets.
Jason Kidd, þjálfari Brooklyn Nets. Mynd/AP
Jason Kidd, þjálfari Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta, reyndi að búa sér til leikhlé í lok leiks á móti Los Angeles Lakers í fyrrinótt en forráðamenn deildarinnar voru ekki hrifnir.

Atvikið fékk mikla fjölmiðlaathygli í Bandaríkjunum og NBA hefur ákveðið að sekta Kidd um 50 þúsund dollara fyrir að hella niður sem gera um sex milljónir í íslenskum krónum.

Kidd hélt á kókglasi þegar hann rakst á Tyshawn Taylor þegar aðeins 8,3 sekúndur voru eftir af leiknum og Brooklyn var búið að nota öll sín leikhlé. Það leit út fyrir að hann hafi kallað á Taylor og sagt honum að hlaupa á sig.

Dómararnir þurftu að stoppa leikinn til þess að hægt væri að þrífa upp bleytuna af gólfinu. Kidd gat þar með sett upp síðustu sóknina sem skilaði þó ekki körfu og Nets-liðið tapaði enn einum leiknum.

Kidd sló á létta strengi eftir leik þegar hann var spurður út í atvikið og talaði um að vera með sveitta lófa og að hann hafi aldrei verið öruggur með boltann í höndunum. Hann neitaði jafnframt því að hafa gert þetta viljandi.

Það er hægt að sjá atvikið hér fyrir neðan sem kostar Kidd sex milljónir en þá er reyndar ekki búið að taka inn í kostnað við hreinsun á jakkafötunum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×