Skoðun

Nýtum kosningaréttinn

Jón Gnarr skrifar
Á miðnætti í kvöld lýkur rafrænum íbúakosningum um verkefni í hverfum Reykjavíkur. Ég vil hvetja alla Reykvíkinga sem voru orðnir 16 ára um síðustu áramót til að nýta sér atkvæðisrétt sinn í dag og forgangsraða þannig fjármunum sem hverfunum er úthlutað.

Reynslan af verkefninu Betri hverfi hefur verið frábær. Í fyrra kusu borgarbúar 124 verkefni og hafa þau nú að mestu verið framkvæmd af hálfu borgarinnar. Við það hefur borgin fengið nýtt og betra svipmót. Nýjungin við þetta verkefni felst í því að Reykjavíkurborg er að framkvæma hugmyndir sem borgarbúar koma með sjálfir. Það er beinlínis dásamlegt.

Í janúar hélt ég, ásamt embættismönnum, íbúafundi í öllum hverfum borgarinnar sem voru sóttir af um þúsund Reykvíkingum. Þar kynntum við verkefnið og í kjölfarið byrjuðu hugmyndir að streyma inn frá borgarbúum á vefinn Betri hverfi. Alls bárust um 600 hugmyndir. Þær voru skoðaðar af íbúanefndum sem starfa ásamt hverfaráðum og fagteymi Reykjavíkurborgar að því að útfæra hugmyndirnar. Alls var stillt upp 229 hugmyndum – allt að 30 í hverju hverfi – sem fólk getur kosið um í íbúakosningunum nú.

Ég tel afar mikilvægt að fólk nýti sér kosningarétt sinn og forgangsraði fjármunum sem borgin hefur ráðstafað til að bæta hverfin í borginni. Ef fáir láta sig málið varða er allt eins líklegt að fátt verði um fína drætti í íbúalýðræðisverkefnum framtíðarinnar. Við þurfum þó ekki að óttast neitt því kjörsókn í fyrra var rúm 8% sem þykir glimrandi góður árangur í sambærilegum verkefnum erlendis.

Allt byrjar með góðri hugmynd og borgarbúar eru svo sannarlega hugmyndaríkir þegar kemur að því að bæta hverfin sín. Veitum góðum hugmyndum Reykvíkinga brautargengi í íbúakosningunum, hugsum vel um hverfin okkar og njótum þess að búa í einni bestu borg heims.

Það er einfalt að kjósa á vefslóðinni kjosa.betrireykjavik.is




Skoðun

Sjá meira


×