Skoðun

Fagmennska og vönduð vinnubrögð

Sigrún Gunnarsdóttir skrifar
Jón Kalman Stefánsson skrifar sterka ádeilu á stjórnmálin hér á landi í grein í Fréttablaðinu þann 6. apríl sl. Hann bendir á hversu takmörkuð áhrif Rannsóknarskýrsla Alþingis hefur haft, einkum miðað við nauðsyn þess að efla fagmennsku og að ákvarðanir séu teknar með fræðilegum röksemdum. Kannski er hér bent á mikilvægasta verkefni okkar hér á landi, að vera fagleg, vanda okkur og nota þekkingu. Þetta hljómar einfalt. En hvað er átt við með fagmennsku?

Ein af grunnstoðum fagmennsku er vitundin um gildi og tilgang verka okkur. Fagmennska felst í því að hafa tengsl við tilganginn, grundvallarreglur og hugsjón starfa okkar. Fagmennska er ábyrgð allra en mikilvægasta hlutverkið er í höndum leiðtogans.

Góður leiðtogi minnir á tilgang og hugsjón hvers verkefnis og fellir slíkt tal inn í daglegar samræður og gengur sjálfur á undan með góðu fordæmi. Þannig verður myndin af hugsjóninni skýr og speglast í daglegum störfum. Góður leiðtogi í heilbrigðisþjónustu minnir starfsfólkið á að allt er gert til þess að skjólstæðingum farnist vel. Góður leiðtogi í verslun minnir á að það er viðskiptavinurinn sem á að njóta góðs af öllu starfi verslunarinnar. Góður leiðtogi í stjórnmálum minnir á og er fyrirmynd þess að stjórnmál snúast um hagsmuni þjóðarinnar og hagsmuni landsins.

Hvert einasta verk góðs leiðtoga endurspeglar fagmennsku, einlægan áhuga á hag annarra og ábyrgð gagnvart hagsmunum heildarinnar. Leiðtogi sem er ábyrgur og faglegur byggir ákvarðanir sínar á þekkingu og siðferðilegu gildismati. Fjölmörg dæmi eru um afburðaárangur slíkra leiðtoga. Stundum eru þeir nefndir hinir hljóðlátu leiðtogar sem leggja meiri áherslu á að hlusta en að tala og njóta þess best að sjá aðra blómstra.

Björt framtíð er stjórnmálaflokkur sem berst fyrir vönduðum vinnubrögðum, fagmennsku og ábyrgð í stjórnmálum. Björt framtíð lítur svo á að fagmennska og fræðilegar röksemdir séu forsendur ábyrgra og árangursríkra ákvarðana.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×