Skoðun

Orrustan um Ísland

Ólína Þorvarðardóttir skrifar

Kosningarnar fram undan eru orrustan um Ísland: Baráttan um auðlindirnar. Baráttan um manngildið. Baráttan um leikreglur samfélagsins og sjálfan grundvöll þess. Á síðustu fjórum árum hafa jafnaðarmenn á Íslandi náð að jafna lífskjör í landinu, við nánast óvinnandi skilyrði, samhliða miklu hreinsunarstarfi eftir frjálshyggjupartíið sem stóð í 18 ár á undan.



Við breyttum skattkerfinu – og já, við hækkuðum skatta á þá hæstlaunuðu, en um leið hlífðum við láglaunahópunum og vörðum millitekjuhópinn. Við jukum stuðning við ungar barnafjölskyldur, hækkuðum barnabætur, hækkuðum húsaleigubætur og drógum úr skerðingum. Við stórhækkuðum vaxtabætur og greiddum samtals hundrað milljarða í þær og barnabætur á kjörtímabilinu – meira en nokkur önnur ríkisstjórn hefur nokkru sinni komist nálægt að gera. Kaupmáttur lægstu launa er hærri nú en hann var í góðærinu. Skattbyrðin er lægri. Ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu er nú helmingi minni en árið 2007 þegar hann varð mestur.



Okkur tókst það sem engri annarri þjóð hefur tekist, sem hefur lent í kreppu. Við vörðum kjör hinna lægst launuðu. Samhliða því að ná halla ríkissjóðs úr 230 milljörðum í 3,6 milljarða á fjórum árum, tókst okkur að verja velferðarkerfið. Það kallaði Göran Person „íslenska kraftaverkið“.



Samfylkingin býður ábyrga stefnu um stöðugleika í efnahagslífinu, heilbrigðar leikreglur, heiðarleika og gagnsæi – og hún fylgir þeirri stefnu.



Fólk og fyrirtæki í þessu landi eiga það skilið.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×