Skoðun

Fegurð hins smáa

Sverrir Björnsson skrifar
Íslenskir stjórnmála- og athafnamenn hafa alltaf hugsað stórt.

Nýjust er hugmyndin um að setja niður stór hótel í miðri Reykjavík í stað þess að nýta minni húsrými sem þegar eru til staðar í miðbæjarhverfunum.

Það á líka að byggja sjúklega dýran risaspítala í borginni á kostnað minni eininga grunnþjónustunnar í nærumhverfi fólks.

Vegna stórlausnahugsunar höfum við risavaxin stóriðjuver en fá lítil iðnfyrirtæki.

Ofurvirkjanir byggðar með risalánum í stað minni umhverfisvænni virkjana.

Miklar auðlindir en lítinn arð af þeim.

Fáar stórútgerðir í stað fjölmennrar smábátaútgerðar í litlum byggðum.

Fáa stóra banka í stað margra lítilla sparisjóða.

Vildardíla fyrir stórfyrirtæki en engan stuðning við smáfyrirtækin sem eru 80% atvinnulífsins.

Gígantískar skuldaniðurfellingar til stóreignamanna meðan smáfuglarnir éta það sem úti frýs.

Risasvaxnar ríkisskuldir eftir langvarandi fjármálafyllerí stjórnmála- og athafnamanna landsins.

Ef við bara fengjum frið fyrir stórhuga stjórnendum væri þessi duglega smáþjóð líklega í fínum málum.

Hugsum smátt – kjósum smátt.




Skoðun

Sjá meira


×