Skoðun

Byrjað á öfugum enda

Árni Páll Árnason skrifar
Félagsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem ætlað er að draga til baka skerðingar í almannatryggingakerfinu frá árinu 2009.Það er gott markmið, sem við styðjum, en það skiptir máli hvernig það er gert.



Hér er byrjað á öfugum enda og gripið til aðgerða sem ekki nýtast þorra lífeyrisþega. Einungis tveir afmarkaðir hópar hagnast á breytingunum: Aldraðir sem geta unnið og hafa atvinnutekjur og svo örorku- og ellilífeyrisþegar sem hafa a.m.k. 250.000 krónur í mánaðartekjur frá lífeyrissjóðum. Mest hagnast þeir 2.500 lífeyrisþegar sem eru með yfir 350.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóðum og fá nú ekkert úr ríkissjóði. Þeir munu eftir breytinguna fá rúmar 30.000 kr. fyrir skatt.



Þessar breytingar gera ekkert fyrir lífeyrisþega með undir 250.000 í tekjur og sem ekki hafa atvinnutekjur.

Ekkert bólar á efndum á raunverulegum kjarabótum, sem nýtast þorra lífeyrisþega. Svoleiðis aðgerðir virðast ekki ofarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar.



Ekkert bólar á lækkun skerðinga vegna fjármagnstekna, sem myndi gagnast stórum hópi lífeyrisþega. Við ákváðum árið 2009 að skerðingarmörk vegna tekna úr lífeyrissjóðum yrðu hækkuð tímabundið og lækkuð aftur í lok árs 2013. Kjaraskerðing lífeyrisþega yrði því tímabundin. Ekkert bólar á flýtingu þeirrarbreytingar, þrátt fyrir digur loforð stjórnarflokkanna þar um fyrir kosningar. Sama á við um loforð framsóknarþingmanna um endurgreiðslu allrar skerðingar allt frá árinu 2009. Ekkert bólar á efndum þar.



Þessi bútasaumur núna gengur líka í þveröfuga átt við þá þverpólitísku sátt milli fulltrúa flokka og aðila vinnumarkaðarins sem náðist í fyrra um nýtt almannatryggingakerfi og teflir þeirri endurskoðun í tvísýnu.



Eftir standa allir ókostir gamla kerfisins, sem við vildum losna við með nýju almannatryggingakerfi. Áfram verður 100% skerðing á framfærsluuppbót. Áfram geta lífeyrisþegar lent í falli á krónu og tapað hundruðum þúsunda ef þeir fá einni krónu meira en minna í greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum.




Skoðun

Sjá meira


×