Golf

Góðar líkur á að liðið verði eins skipað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Auk Guðmundar léku Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús úr GR, Axel Bóasson og Rúnar Arnórsson úr GK og Ragnar Már Garðarsson úr GKG fyrir Íslands hönd.
Auk Guðmundar léku Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús úr GR, Axel Bóasson og Rúnar Arnórsson úr GK og Ragnar Már Garðarsson úr GKG fyrir Íslands hönd. Fréttablaðið/Anton
„Ég er virkilega sáttur með að komast áfram. Það var aðalmarkmiðið,“ segir Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingur úr GR.

Guðmundur var einn sex kylfinga sem spiluðu fyrir hönd Íslands á móti tíu þjóða sem lauk í Tékklandi um helgina. Ísland hafnaði í öðru sæti og tryggði sér þátttökurétt á Evrópumót áhugamanna á næsta ári. Munaði um draumahring Guðmundar, sem var í banastuði á þriðja og síðasta hringnum.

„Það gekk vel fyrir innan 120 metrana,“ segir Guðmundur, sem fékk sex fugla á hringnum. Þar af voru allar fjórar par fimm holurnar. Hann spilaði á sex undir pari, best allra á lokahringnum.

„Auðvitað kitlar það egóið. Ég tel samt að við hefðum getað gert mun betur í þessu móti. Það sést á skorinu að við bættum okkur á milli daga,“ segir Guðmundur.

Belgar höfnuðu í fyrsta sæti en Ísland hafði meðal annars betur en Rússar, Tyrkir og Ungverjar.

„Það er ekkert slæmt að vera að gefa Belgum smá samkeppni. Þeir eru náttúrulega virkilega góðir og með kylfinga bæði á Evrópumótaröðinni og á PGA-mótinu,“ segir Guðmundur Ágúst. Annað sætið gefur Íslandi þátttökurétt í úrslitakeppninni í Finnlandi á næsta ári. Þrátt fyrir góðan árangur sexmenninganna er ekki sjálfgefið að þeir verði fulltrúar Íslands í lokakeppninni.

„Við verðum að vinna okkar sæti í landsliðinu eins og í öðrum íþróttum. Við erum með ungt lið, enginn sem ætlar að gerast atvinnumaður á næsta ári, þannig að það eru alveg góðar líkur á að liðið verði eins skipað.“

Birgir Leifur Hafþórsson gegndi hlutverki liðsstjóra Íslands á mótinu. Hann sagði hvasst hafa verið í Tékklandi en það hefði ekkert hjálpað íslensku kylfingunum frekar að vera vindinum vanir.

„Nei, alls ekki. Ég held að gæði kylfinganna hafi sýnt sig þarna. Þessir strákar eru orðnir svo tæknilega góðir og höndla orðið hvaða aðstæður sem er,“ sagði Birgir Leifur. Það hafi sýnt sig á lokahringnum þegar veðrið var best að þá spilaði Ísland best.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×