Skoðun

Einfeldni, ekki heimska

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Þorsteinn Pálsson, Benedikt Jóhannesson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason – og þið öll hin. Hvernig dettur ykkur þetta í hug? Þið eruð ekki heimsk, eða hvað?

Þið viljið að ríkisstjórnin ykkar, sem er stofnað til af tveimur flokkum, sem báðir tveir eru algerlega andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu, gersamlega án tillits til niðurstöðu samningaviðræðna þar um, láti fara fram atkvæðagreiðslu um hvort eigi að ljúka þeim samningaviðræðum, sem hafnar voru af síðustu ríkisstjórn gegn afdráttarlausum vilja flokka ykkar.

Þetta viljið þið í þeirri von að meirihluti þjóðarinnar sé andvígur yfirlýstri stefnu flokkanna ykkar og þvingi þá og ríkisstjórn þeirra til þess að breyta þvert gegn yfirlýstri stefnu sinni.

Og hvað svo? Gunnar Bragi Sveinsson mæti til Brussel með beiðni um að samningaviðræðum um aðild Íslands að ESB verði áfram haldið þó hann og ríkisstjórn hans séu algerlega andvíg því að þær viðræður leiði til jákvæðrar niðurstöðu! Að Bjarni Benediktsson lýsi því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn vilji fara að ræða við Þjóðverja, Svía, Dani, Breta – og alla þá hina – um samruna sem flokkurinn sé algerlega andvígur! Hvílík heimska! Hvílíkt rugl! Hvílíkt aðhlátursefni þjóða heims yrðu ekki Íslendingar! Nóg er nú samt!

Afbötun ykkar fyrir að kjósa og fylgja málstað í síðustu kosningum sem ykkar sjónarmiðum er andsnúinn fæst ekki svona. Segið heldur eins og satt er: Fyrirgefið okkur. Við vissum ekki hvað við vorum að gera!

A.m.k. gerið þið ykkur þá ekki að aðhlátursefni. Bara að saklausum einfeldningum!




Skoðun

Sjá meira


×