Skoðun

Grænþvottur Landsvirkjunar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Baráttan um vernd Þjórsárvera á sér langa sögu. Um 1970 voru uppi áform um að sökkva nánast öllum verunum, en að endingu voru allmargar upptakakvíslar Þjórsár að austanverðu leiddar úr farvegi sínum í gegnum víðáttumikið net skurða og lóna í Kvíslaveitu. Þrátt fyrir þetta umfangsmikla rask á svæðinu eru enn lítt snortin víðerni eftir vestan Þjórsár sem einkennast af víðfeðmu votlendi með fjölbreyttu fuglalífi, freðmýrum, víðiheiðum og blómabrekkum, enda nýtur svæðið alþjóðlegrar verndar sem Ramsarsvæði.

Landsvirkjun virðist þó enn telja hagkvæmni Norðlingaölduveitu svo mikla að ekki sé hægt að hverfa frá byggingu hennar. Búningurinn sem fyrirtækið kýs að setja áform sín í eru mér þó ekki geðfelld: Orkunýting í Þjórsárverum og vernd þeirra geta farið saman! Með öðrum orðum þá er það skoðun Landsvirkjunar að þrátt fyrir að Norðlingaölduveita, í einni eða annarri mynd, kljúfi lítt snortin víðerni Þjórsárverasvæðisins vestan Þjórsár og eyðileggi rennsli í Gljúfurleitarfossi og Dynk, sem eru fyllilega jafnokar Gullfoss, þá geti miðlunarlón vel farið saman með vernd svæðisins. Ég spyr: Er þetta hin nýja náttúruverndarsýn Landsvirkjunar? Fyrir mér er þetta grænþvottur. Því miður virðast ráðherrar taka undir orð Landsvirkjunar.

Með hugmyndum sínum um nýja útfærslu á Norðlingaölduveitu gengur Landsvirkjun gegn vilja Alþingis frá því í janúar í ár, en svæðið sem Norðlingaölduveita er á lenti í verndarflokki rammaáætlunar. Spyrja má hvort það sé nóg að breyta útfærslu hugmynda sem lenda í verndarflokki og freista þess þannig að fá þær flokkaðar upp á nýtt? Ef við skoðum þetta fyrir vatnsaflsvirkjanir, þá miðaðist mat faghópa um náttúru- og menningarminjar og ferðaþjónustu og útivist við svæðin sem virkjunarhugmyndir voru um en ekki lónstæðin sjálf. Það voru náttúruverðmæti Þjórsárvera sem réðu því að svæðið var sett í verndarflokk. Við það mat skiptir útfærsla á virkjunarhugmyndum engu máli.

Víða erlendis eru stíflumannvirki rifin niður til að endurheimta landsvæði sem hafa hátt verndargildi. Í stað þess að halda áfram áformum um eyðileggingu Þjórsárvera, eins og Landsvirkjun vill gera, tel ég mun uppbyggilegra að kanna möguleikann á endurheimt Þjórsárvera með því að taka niður Kvíslaveitu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×