Körfubolti

NBA í nótt: Loksins sigur hjá Miami | Durant með 54 stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Meistarar Miami Heat komst aftur á sigurbraut í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en liðið vann þá Philadelphia 76ers, 101-86.

Miami hafði tapað þremur leikjum í röð en liðið tapaði síðast fjórum í röð í mars árið 2011.

Sigurinn í nótt var öruggur en Chris Bosh var stigahæstur hjá Miami með 25 stig. LeBron James var með 21 stig, tíu stoðsendingar og átta fráköst. Dwyane Wade var með átta stig en hann hélt upp á 32 ára afmæli sitt í gær.

Miami er í öðru sæti Austurdeildarinnar með 28 sigurleiki, þremur sigrum á eftir Indiana sem var í fríi í nótt.

Toronto er komið upp í þriðja sætið eftir sigur á Minnesota, 94-89. Kyle Lowry skoraði 24 stig fyrir Toronto og Amir Johnson nítján. Þetta var sjötti sigur liðsins í röð á heimavelli.



Tvö efstu lið Vesturdeildarinnar, San Antonio og Portland, mættust í Texas þar sem gestirnir gerðu sér lítið fyrir og unnu níu stiga sigur, 109-100.

LaMarcus Aldridge var með 26 stig og þrettán fráköst og Wesley Matthews bætti við 24 stigum fyrir Portland.

San Antonio heldur toppsæti sínu í deildinni en tapaði sínum fyrsta leik eftir sex sigra í röð. Manu Ginobili var stigahæstur í liðinu með 29 stig.

Oklahoma City er í þriðja sætinu með jafn marga sigra og Portland. Liðið vann Golden State í nótt, 127-121, þar sem að Kevin Durant fór á kostum og skoraði 54 stig. Þar með bætti hann persónulegt met hjá sér.

Durant skoraði ellefu stig á tveggja mínútna kafla í fjórða leikhluta en Oklahoma City komst þá sautján stigum yfir. Hann nýtti nítján af 28 skotum sínum í leiknum og ellefu af þrettán vítaköstum.



LA Lakers vann Boston, 107-104, í leik gömlu stórveldanna. Rajon Rondo sneri aftur inn á völlinn eftir að hafa verið frá vegna krossbandsslita. Hann klikkaði þó á skoti á lokasekúndunum sem hefði tryggt Boston framlengingu.

Pau Gasol skoraði 24 stig fyrir Lakers en bæði lið eru í neðri hluta sinna deilda. Líklegt er að hvorugt lið komist áfram í úrslitakeppnina í vor.

Úrslit næturinnar:

New York - LA Clippers 95-109

Orlando - Charlotte 101-111

Philadelphia - Miami 86-101

Toronto - Minnesota 94-89

Washington - Chicago 96-93

Boston - LA Lakers 104-107

Detroit - Utah 89-110

Memphis - Sacramento 91-90

San Antonio - Portland 100-109

Denver - Cleveland 109-117

Phoenix - Dallas 107-110

Oklahoma City - Golden State 127-121

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×