Fótbolti

Kolbeinn: Ekki gleyma því að ég hef alltaf skorað mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Ajax.
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Ajax. Mynd/NordicPhotos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson, framherji Ajax og íslenska landsliðsins í fótbolta, var spurður út í ummæli þjálfarans Frank de Boer í vikunni en De Boer gagnrýndi þá opinberlega Kolbein og aðra framherja hollenska liðsins.

„Ef þjálfarinn ákveður að velja annan framherja í liðið þá verð ég bara að berjast fyrir sæti mínu og sýna að ég eigi að vera í byrjunarliðinu," segir Kolbeinn sem er staddur í æfingabúðum í Tyrklandi.

„Marktækifærin koma og þá verð ég bara að vera tilbúinn. Ég hef alltaf skorað mörk, það má ekki gleyma því," sagði Kolbeinn í viðtali við blaðamann voetbalcentraal.nl.

„Næstu mánuðir eru mjög mikilvægir fyrir mig. Þegar ég horfi til baka á síðustu þrjú ár þá eru það mikil vonbrigði hversu mörgum leikjum ég hef misst af. Ég hef því ekki náð að þróa leik minn nógu mikið. Nú þarf ég bara að fara að sýna hvað ég get," segir Kolbeinn sem hefur meiðst reglulega á sínu ferli og oftast þegar hann er að komast á fulla ferð.

Kolbeinn hefur skorað sex mörk í fimmtán deildarleikjum með Ajax á þessu tímabili en þessi sex mörk komu í tíu fyrstu leikjum hans. Kolbeinn hefur ekki skorað fyrir Ajax í þeim þremur leikjum sem hann hefur spilað síðan að kom til baka eftir ökklameiðslin sem hann varð fyrir í fyrri umspilsleiknum á móti Króatíu.

Kolbeinn í leik með Ajax.Mynd/NordicPhotos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson á æfingu með Ajax í Tyrklandi.Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×