Körfubolti

David Stern er ekki lengur yfirmaður NBA-deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Stern.
David Stern. Vísir/Getty
Það eru tímamót í NBA-deildinni í körfubolta í dag því þetta er fyrsti dagurinn í 30 ár sem David Stern er ekki yfirmaður deildarinnar. Adam Silver hefur nú tekið við starfi Stern sem er orðinn 71 árs gamall og var fyrir löngu búinn að ákveða að hætta um þessi mánaðarmót.

Þegar David Stern varð yfirmaður NBA-deildarinnar 1. febrúar 1984 þá var NBA-deildin langt frá því að vera á þeim stað sem hún er í dag. Leikir í miðri viku í lokaúrslitum voru sem dæmi ekki sýndir beint í Bandaríkjunum og framtíðin var ekki alltof björt.

Undir stjórn Stern varð NBA-deildin ein sú allra vinsælasta í heimi, veltir nú 5,5 milljörðum dollara og hefur fyrir löngu hafið innrás sína inn á ný markaðssvæði út um allan heim.

Auðvitað hjálpuðu leikmenn eins og Magic, Larry Bird og Michael Jordan að keyra upp vinsældir íþróttarinnar en ein mesta goðsögn NBA-sögunnar er örugglega David Stern vegna hans starf sem yfirmaður NBA.

David Stern hefur verið umdeildur og stjórnsamur en það efast enginn um það sem hann gerði fyrir NBA-deildina og fyrrum leikmenn og þjálfarar hafa verið duglegir að tala vel um karlinn á þessum tímamótum.

David Stern með eftirmanni sínum Adam Silver.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×