Handbolti

Ólafur fer frá Flensburg til Álaborgar

Ólafur Gústafsson er á leið frá Þýskalandi.
Ólafur Gústafsson er á leið frá Þýskalandi. Vísir/Getty
Ólafur Gústafsson, landsliðsmaður í handbolta, yfirgefur þýska liðið Flensburg í sumar og gengur í raðir Álaborgar í Danmörku.

Frá þessu er greint á heimasíðu Flensburg en þar kemur fram að hann hafi skrifað undir þriggja ára samning við dönsku meistarana fyrir helgi.

Ólafur, sem gekk í raðir Flensburg undir lok árs 2012, hefur lítið sem ekkert fengið að spila með liðinu að undanförnu. Hann hefur einnig glímt við meiðsli sem héldu honum frá keppni með Íslandi á EM í janúar.

„Ég tel það rétt skref hjá mér að breyta lið og fara til Danmerkur. Álaborg er áhugavert félag. Ég hlakka til nýrrar áskorunar og er ánægður með hvernig málið var klárað,“ segir Ólafur Gústafsson.

Álaborg stóð nokkuð óvænt uppi sem sigurvegari í dönsku úrvalsdeildinni í fyrra eftir sigur á stjörnum prýddu liði KIF Kolding í úrslitarimmu.

Liðið er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar með 36 stig, stigi á eftir Kolding og tveimur stigum á eftir toppliði Skjern þegar 23 umferðum er lokið af 26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×