Golf

Garrigus leiðir á Copperhead eftir tvo hringi

Robert Garrigus hefur verið í stuði á Valspar-meistaramótinu hingað til.
Robert Garrigus hefur verið í stuði á Valspar-meistaramótinu hingað til. AP/Vísir




Bandaríkjamaðurinn Robert Garrigus leiðir Valspar-meistaramótið þegar að það er hálfnað en hann hefur leikið hringina tvo á hinum krefjandi Copperhead velli á sjö höggum undir pari.

Hann er þremur höggum á undan næsta manni sem er Kevin Na á fjórum höggum undir. Það eru þó nokkur stór nöfn  frá Evrópu ofarlega í baráttunni en þar má helst nefna Justin Rose og Matteo Manassero sem eru jafnir í þriðja sæti á þremur höggum undir pari ásamt Bandaríkjamönnunum Matt Every og Pat Perez.

Eins og áður segir er Copperhead völlurinn í Flórída mjög erfiður en enginn fékk að finna fyrir því jafn grimmilega og hinn litríki John Daly. Daly sem hefur unnið tvö risamót á ferlinum lék annan hringinn á 90 höggum sem er versta skor á PGA-mótröðinni í rúma tvo áratugi.

Það sem gerði útslagið fyrir Daly var 16.holan en þar setti hann þrjá bolta í vatnstorfæru af teig og að lokum kláraði hann holuna á 12 höggum eða átta yfir pari.

Þriðji hringur fer fram í kvöld en hann verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá 17:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×