Körfubolti

Skallagrímsmenn unnu Hauka og sendu KFÍ niður - Smith með 52 stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Þór Sævarsson er þjálfari Skallagrímsliðsins.
Pálmi Þór Sævarsson er þjálfari Skallagrímsliðsins. Vísir/Vilhelm
Skallagrímsmenn gulltryggðu sæti sitt í Dominos-deild karla í körfubolta á næsta tímabili þegar þeir unnu níu stiga sigur á Haukum eftir framlengdan leik í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld, 99-90. KFÍ á leik inn á morgun en eiga ekki lengur möguleika á því að koma sér upp úr fallsætinu.

Benjamin Smith átti ótrúlegan leik en hann skoraði 52 stig fyrir Skallagrím í kvöld en hann var einnig með 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Guðni Erlendsson var næststigahæstur með 16 stig en Terrence Warson skoraði 24 stig fyrir Hauka og Davíð Páll Hermannsson var með 21 stig.

Skallagrímsmenn náðu þar með fjögurra stiga forskoti á KFÍ en Ísfirðingar geta þar með aðeins náð Borgnesingum að stigum. Skallagrímur hafði betur í innbyrðisleikjum sínum við KFÍ í vetur og verður því alltof ofar verði liðin með jafnmörg stig.

Skallagrímsliðið komst sex stigum yfir í upphafi fjórða leikhlutans, 66-60,  en virtist vera að missa frá sér sigurinn eftir 19-8 sprett Hauka sem kom Hafnarfjarðarliðinu fimm stigum yfir, 79-74 þegar 80 sekúndur voru eftir af leiknum.

Skallagrímsmenn tryggðu sér framlengingu með því að skora fimm síðustu stig venjulegs leiktíma og unnu svo framlenginguna sannfærandi 20-11.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×