Golf

Adam Scott leiðir á Arnold Palmer Invitational eftir frábæran fyrsta hring

Adam Scott var sjóðandi heitur á Bay Hill í dag.
Adam Scott var sjóðandi heitur á Bay Hill í dag. AP/Vísir
Ástralinn Adam Scott átti hreint út sagt magnaðan fyrsta hring á Arnold Palmer Invitational mótinu en hann jafnaði vallarmetið á hinum fræga Bay Hill velli í Flórída eftir að hafa leikið á 62 höggum eða 10 undir pari. Scott fékk tvo erni og sjö fugla á hringnum en hann leiðir mótið með þremur höggum og gæti með sigri komist upp fyrir Tiger Woods í efsta sæti heimslistans. Í öðru sæti eru Ryo Ishikawa og John Merrick á sjö undir pari en einn í fjórða sæti er spænski kylfingurinn Gonzalo Fdez-Castano á sex undir.

Nokkur þekkt nöfn eru á fimm höggum undir pari, meðal annars Brandt Snedeker og Paul Casey en aðstæður á Bay Hill vellinum til að skora vel voru mjög góðar í dag. Lítill vindur, rúmlega 30 stiga hiti og skýin héldu sólinni úr augum keppenda. Tilþrif dagsins átti þó Graeme McDowell sem lék fyrsta hring á fjórum höggum undir pari en hann setti niður 24 metra pútt fyrir erni á sjöttu holu.

Hringur númer tvö fer fram á morgun og hefst bein útsending á Golfstöðinni klukkan 19:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×