Golf

Frábær lokahringur tryggði Lexi Thompson sigur á Kraft Nabisco meistaramótinu

Thompson fagnar titlinum ásamt fjölskyldu og vinum.
Thompson fagnar titlinum ásamt fjölskyldu og vinum. AP/Vísir
Lexi Thompson á eflaust aldrei eftir að gleyma gærdeginum en hún sigraði á sínu fyrsta risamóti, Kraft Nabisco meistaramótinu sem fram fór á Mission Hills í Kaliforníu. Thompson er aðeins 19 ára gömul en þetta er hennar fjórði sigur á LPGA-mótaröðinni og hefur hún á stuttum tíma orðið einn vinsælasti kvenkylfingur heims. Hún lék hringina fjóra á 14 höggum undir pari en Michelle Wie endaði í öðru sæti á 11 höggum undir.

Thompson var jöfn Wie fyrir lokahringinn á tíu höggum undir pari en leiðir skildust nánast í byrjun þar sem Thompson fékk þrjá fugla á fyrstu fimm holunum. Michelle Wie lék fyrri níu holurnar á einu höggi yfir pari og munurinn á milli þeirra því fjögur högg þegar að lokahringurinn var hálfnaður. Thomson gerði engin mistök á seinni níu, paraði allar holurnar og endaði hringinn á 68 höggum eða fjórum undir pari. Michelle Wie klóraði í bakkann á seinni níu en það var of seint og hún lék lokahringinn á 71 höggi, einu undir pari og endaði mótið í öðru sæti.

Stacy Lewis náði þriðja sætinu með góðum lokahring upp á 69 högg en hún var nánast aldrei í baráttunni um sigurinn.

Hér fyrir ofan má sjá Thomson fagna titlinum en hefð er fyrir því á Kraft Nabisco meistaramótinu að sigurvegarinn taki smá sundsprett í tjörninni við lokaholuna. Thompson hafði ríka ástæðu til þess að fagna enda fékk hún rúmlega 35 milljónir króna fyrir sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×