Golf

Matt Kuchar í góðum málum fyrir lokahringinn í Texas

Kuchar er einn vinsælasti kylfingurinn á PGA-mótaröðinni.
Kuchar er einn vinsælasti kylfingurinn á PGA-mótaröðinni. AP/Getty
Bandaríkjamaðurinn Matt Kuchar er í frábærum málum á Shell Houston Open sem fram fer í Texas en hann er samtals á 15 höggum undir pari fyrir lokahringinn. Kuchar leiðir mótið með fjórum höggum en í öðru sæti eru þeir Cameron Triangle og Sergio Garcia á 11 undir pari. Garcia leiddi mótið eftir tvo hringi en fann sig alls ekki á þeim þriðja og kom inn á 73 höggum eða einu yfir pari.

Í fjórða sæti er Ástralinn Matt Jones á níu höggum undir en ungstirnið Rickie Fowler og Ben Curtis eru jafnir í því fimmta á átta höggum undir pari. Það verður því áhugavert að sjá hvort að einhverjir geri atlögu að Kuchar á lokahringnum en hann gæti með sigri unnið sinn sjöunda sigur á PGA-mótaröðinni.

Rory McIlroy hefur alls ekki átt gott mót í Texas en hann er samtals einn undir pari, jafn í 37. sæti eftir hringina þrjá. Bein útsending frá mótinu hefst á Golfstöðinni klukkan 17:00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×