Golf

Seung-Yul Noh leiðir fyrir lokahringinn á Zurich Classic

Seung-Yul Noh á þriðja hring í gær.
Seung-Yul Noh á þriðja hring í gær. AP/Vísir
Suður-Kóreumaðurinn Seung-Yul Noh leiðir Zurich Classic fyrir lokahringinn sem fram fer í kvöld en hann er samtals á 18 höggum undir pari eftir fyrstu þrjá hringina. Noh hefur leikið á alls oddi á TPC Louisiana vellinum hingað til en hann lék þriðja hringinn á 65 höggum án þess að fá einn einasta skolla.

Það eru þó margir sterkir kylfingar sem eiga eftir að sækja á Noh á lokahringnum í kvöld en í öðru sæti er fyrrum PGA-meistarinn Keegan Bradley á 16 höggum undir pari. Robert Streb er í þriðja sæti á 15 höggum undir pari en margir kylfingar koma þar á eftir á 14 og 13 höggum undir pari sem gætu blandað sér í toppbaráttuna með góðum lokahring.

Síðasti dagur Zurich Classic verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá klukkan 17:00 í dag. Það er þó ekki eina mótið sem verður í beinni útsendingu í kvöld því klukkan 23:00 verður skipt yfir til Kaliforníu þar sem lokahringur Swinging Skirts kvennamótsins fer fram en það er hluti af LPGA mótaröðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×