Golf

Angel Cabrera leiðir á Wells Fargo eftir fyrsta hring

Angel Cabrera er skemmtilegur kylfingur.
Angel Cabrera er skemmtilegur kylfingur. AP/Getty
Argentínumaðurinn Angel Cabrera leiðir á Wells Fargo meistaramótinu eftir fyrsta hring en þessi vinsæli 44 ára gamli kylfingur lék fyrsta hring á 66 höggum eða sex höggum undir pari.

Mótið fer fram á hinum þekkta Quail Hollow velli en það er síðasta mótið á PGA-mótaröðinni fyrir Players meistaramótið í næstu viku, og því margir góðir kylfingar með að þessu sinni til þess að ná sér í leikform fyrir komandi átök.

Á eftir Cabrera kemur enginn annar en Phil Mickelson en hann deilir öðru sæti með Martin Flores á fimm höggum undir pari. Stewart Cink, Jonathan Byrd og Webb Simpson koma næstir á fjórum höggum undir pari.

Rory McIlroy byrjaði mótið einnig vel og er á þremur höggum undir pari ásamt Justin Rose, Martin Kaymer og fleiri kylfingum.

Annar hringur fer fram í dag en hann verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá 19:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×