Innlent

Snjórinn enn að stríða landsmönnum

Gissur Sigurðsson skrifar
Frá snjómokstri á veginum til Mjóafjarðar fyrir helgi.
Frá snjómokstri á veginum til Mjóafjarðar fyrir helgi. Vegagerðin/Birna Ingadóttir
Rigningin á norðausturlandi í nótt breyttist í slyddu og jafnvel snjókomu þannig að vetrarfæri er þar víða á vegum. Klukkan tíu í morgun var staðan sú að hálkublettir voru á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Krapi og éljagangur á Hólaheiði, Hófaskarði, Hálsum og til Raufarhafnar.

Þá var krapi og éljagangur á Fjarðarheiði og þæfingur á Vatnsskarði eystra. Mjóafjarðarheiði, sem var opnuð fyrir helgi eftir að hafa verið lokuð í allan vetur, er aftur orðin ófær, Öxi er þungfær og hálkublettir eru á Breiðdalsheiði.

Annars var hæglætis norðanátt víðasthvar á landinu í nótt og fór hiti víða niður undir frostmark á láglendi og eins stigs frost mældist í Bolungarvík klukkan þrjú í nótt.

Þá mældist aðeins tveggja stiga hiti í Reykjavík og á Egilsstöðum og þrjú stig á Akureyri. Frost mældist nokkuð víða á hálendinu. Fljótlega fór þó að hlýna í morgun, þar sem sólar naut á annað borð við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×