Innlent

Aurskriða féll niður yfir Hnífsdalsveg og er hann lokaður

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aurskriða. Myndin tengist ekki aurskriðunni yfir Hnífsdalsveg heldur er um að ræða flóð sem varð í fyrra fyrir norðan.
Aurskriða. Myndin tengist ekki aurskriðunni yfir Hnífsdalsveg heldur er um að ræða flóð sem varð í fyrra fyrir norðan.
Aurflóð féll niður Eyrarhlíðina og yfir Hnífsdalsveg þannig að hann lokaðist í morgun en þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavarnardeild Ríkisins. Veðurstofan er nú að meta hættuna á frekari ofanflóðum en á meðan hefur lögreglan, með aðstoð björgunarsveita, lokað Hnífsdalsvegi.

„Flóðið er á að giska 40 til 60 metra breitt. Á veginum er þetta í um eins meters hæð eða svo. Þetta er náttúrlega bara aurflóð; bæði leðja og grjóthnullungar,“ segir Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum.

Ekkert er hægt að segja til um hvenær vegurinn opnar, og verður hann lokaður meðan mat fer fram á vegum veðurstofu, sérfræðingar þar eru að meta hættuna út frá aðstæðum og veðurspá. Sömuleiðis eru lögregla og björgunarsveit að skoða aðstæður. „Meðan þetta mat fer fram höfum við veginn lokaðan af öryggisástæðum. Þannig að fólk ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessu,“ segir Hlynur.

Gríðarleg úrkoma hefur verið undanfarinn sólarhring á Vestfjörðum og segir Hlynur að hugsanlegt sé að fleiri flóð falli. „Það er akkúrat það sem verið er að meta nú og þá hvar það gæti orðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×