Hraungos hófst í Holuhrauni norðan Dyngjujökuls rétt eftir miðnætti norðan Dyngjujökuls. Vefmyndvélar Mílu sýna að kvika streymir upp á yfirborðið. Kvikan hefur náð að brjóta sér leið upp á yfirborðið norðan jökulsins á íslausu svæði.
Margir kannast kannski við Þorbjörgu en hún keppir í skylmingum með höggsverði og hefur sjö sinnum orðið Norðurlandameistari kvenna í þeirri grein. Hún er einnig margfaldur Íslandsmeistari.
„Eins og staðan er núna sjáum við einungis lítið glóandi auga og hvíta gufustróka sem líklega koma frá sprungunni. Þetta er mjög lítið núna en það var töluvert meiri virkni fyrr í nótt.“
Þorbjörg segir að þó nokkuð miklar drunur hafi fylgt gosinu í upphafi en hún er stödd um fimm kílómetra frá gosinu.
„Við höfum ekki orðið vör við neina skjálftavirkni hér á svæðinu,“ segir Þorbjörg sem er á svæðinu ásamt Þorsteini Jónssyni frá Jarðvísindastofnun.
Vísindamenn frá Cambridge, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands hafa verið að vinna á svæðinu undanfarna daga og voru fengin til að sinna eftirliti þar sem hópurinn var næst gosstöðvunum.
Þorbjörg er ásamt fjórum öðrum doktorsnemum frá háskólanum í Cambridge en nemarnir eru í sérstöku samstarfsverkefni við Jarðvísindastofnun Íslands.