Steingerður Þórisdóttir, íbúi í Samtúni í póstnúmeri 105 í Reykjavík, segir slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu eiga afar mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína í dag.
Steingerður var ein þeirra sem naut aðstoðar slökkviliðsmanna í morgun þegar flæddi inn á heimili hennar í morgun. Gríðarlegt úrhelli hefur verið á svæðinu frá því í nótt og margir sem vöknuðu við vondan draum og óskuðu eftir aðstoð.
„Slökkviliðið er búið að vera hérna í þrjá tíma að dæla út vatni,“ segir Steingerður í ábendingu til Vísis. Hún heldur ekki vatni yfir frammistöðu kappanna.
„Það er alveg ótrúlegt hvað það var mikil jákvæðni, hlýja og dugnaður!“
Steingerður bauð slökkviliðsmönnunum upp á kaffi og After eight súkkulaði sem hún segir þá hafa þegið með þökkum.
„Vatnið var upp fyrir ökkla og allir voru smá að pæla hvort maður gæti ekki rukkað inn í nýja sundlaug í 105.“
Slökkviliðið hefur haft í nógu að snúast í morgun eins og sjá má í fleiri fréttum hér að neðan.
Heldur ekki vatni yfir frammistöðu slökkviliðsmanna

Tengdar fréttir

Slökkvilið hefur ekki undan útköllum
Neyðarlínan biðlar til almennings að hreinsa vel frá niðurföllum svo að rigningarvatn komist örugglega niður.

Mikið flætt inn í hús vegna veðurs
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur þurft að sinna mörgum útköllum það sem af er degi vegna vatnsleka í íbúðarhúsum, aðallega í Hátúni.

Míglekur á Landspítalanum
Víða lekur í storminum á höfuðborgarsvæðinu og finnur starfsfólk Landspítalans fyrir því. Fötum hefur verið komið upp víða á göngum spítalans vegna vatnsleka.

Allt á floti í Kópavogi
Gísli Sigurður, íbúi í Kópavogi, fór á stjá í morgun og tók meðfylgjandi myndband sem lýsir vel vatnsmagninu á götum Kópavogar.