Golf

Martin Kaymer sigraði á Grand Slam mótinu í Bermúda

Kaymer fagnar titlinum í dag.
Kaymer fagnar titlinum í dag. Getty
Þjóðverjinn Martin Kaymer sigraði á PGA Grand Slam golfmótinu sem kláraðist í dag en alla jafna hafa aðeins fjórir kylfingar þátttökurétt í mótinu sem unnið hafa risamót á árinu.

Í ár léku Bubba Watson sem sigraði Masters mótið, Martin Kaymer sem sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu og Rory McIlroy sem sigraði á Opna breska og PGA-meistaramótinu. Þá fékk reynsluboltinn Jim Furyk einnig sérstakt boð um að vera með að þessu sinni þar sem McIlroy sigraði á tveimur risamótum á árinu.

Leiknir voru tveir hringir á Port Royal vellinum í Bermúda en eftir fyrri hringinn hafði Kaymer tveggja högga forskot á Bubba Watson eftir að hafa leikið á 65 höggum eða sex undir pari.

McIlroy sat í þriðja sæti, fjórum höggum á eftir Kaymer en Norður-Írinn spilaði sig út úr mótinu með hræðilegum seinni hring í dag. Á meðan náði Jim Furyk sér aldrei á strik en hann endaði að lokum í síðasta sæti.

Baráttan var því milli Kaymer og Watson á lokahringnum og eftir að hafa fengið þrjá fugla í röð á seinni níu holunum hafði Watson tveggja högga forskot á Kaymer þegar að þeir komu á 17. teig.

Þar brást Watson þó bogaistinn og hann þurfti að sætta sig við skolla eftir hræðilegt upphafshögg á meðan að Kaymer fékk fugl og staðan því jöfn fyrir 18. holu.

Báðir kylfingar fengu par á lokaholunni og því þurfti að grípa til bráðabana sem stóð stutt yfir þar sem Þjóðverjinn fékk fugl á fyrstu holu og tryggði sér sigurinn.

Fyrir ómakið fékk Kaymer rúmlega 72 milljónir króna í verðlaunafé en það verður að teljast ágætis upphæð fyrir tvo, en þó mjög vel spilaða golfhringi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×