Brennisteinsdíoxíðsmengun hefur farið hækkandi í Hveragerði og höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Þetta sýna mengunarmælar.
Hæsta gildi í Hveragerði hefur farið yfir 1400 míkrógrömm á rúmmetra. Mælir í Hvaleyrarholti hefur sýnt yfir 1500 míkrógrömm á rúmmetra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Þar segir að hæg austanátt sem er á þessu svæði núna auki líkur á að styrkur brennisteinsdíoxíðs eigi eftir að hækka enn frekar.
Veðurspá fyrir morgundaginn gerir ráð fyrir að bæti í vind en að áfram verði austlægar áttir. Gæti því áhrifa mengunarinnar gætt næstu daga.
Almannavarnir biður fólk með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma að fylgjast vel með mengunarmælum á vefsíðunni loftgaedi.is.
