Umferðin gekk hvað verst í Kópavogi í morgun og eitthvað var um minniháttar árekstra. Að sögn lögreglu var fólk víða í vandræðum í brekkum og fáförnum götum enda flestir enn á vanbúnum bílum. Dæmi eru um að fólk verið um tvær klukkustundir að komast leiðar sinnar víða í bæjarfélaginu en mokstur hófst ekki fyrr en um klukkan hálf átta í morgun. Nú er unnið er að mokstri á stofnbrautum og í brekkum en mokstur í íbúðagötum hefst síðar í dag.
Þá urðu einhverjar tafir á Sæbraut eftir að reykur kom upp í hjólabúnaði strætisvagns við Skútuvog og var slökkvilið kallað á staðinn. Þá var slökkvilið jafnframt kallað út eftir að eldur kviknaði í bifreið við Höfðabakka um klukkan hálf átta í morgun. Að sögn lögreglu stóð bíllinn í ljósum logum en engin slys urðu á fólki. Slökkvistarf gekk vel fyrir sig.

Hálka og hálkublettir eru víðast hvar á landinu en greiðfært er á suðausturlandi. Ófært er á Víkurskarði og hafa björgunarsveitir verið þar að störfum í morgun eftir að rúta og póstbíll fóru út af veginum. Lokað er fyrir umferð um víkurskarð og unnið er að því að opna fyrir umferð. Þá er þungfært og skafrenningur á Breiðdalsheiði en Öxi er ófær.
Veðurhorfur á landinu:
Norðvestan 18-25 m/s og snjókoma eða él á N- og A-landi, hvassast á annesjum, en annars yfirleitt mun hægari og dálítil él. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu í dag. Norðvestan 10-15 og él NA-til í kvöld, en annars hæg breytileg átt og bjart með köflum. Vaxandi austanátt og þykknar upp í nótt, 8-15 og slydda eða rigning S-lands undir morgun. Austan 8-15 og slydda eða snjókoma norðantil á landinu eftir hádegi á morgun, en hægari vindur og rigning með köflum fyrir sunnan. Hiti víða kringum frostmark, en hiti 1 til 6 stig við suður- og suðvestur ströndina á morgun.

