Innlent

Annar hlýjasti nóvembermánuður síðan mælingar hófust í Reykjavík

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 5,5 gráður.
Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 5,5 gráður. Vísir/Vilhelm
Mánaðarmeðalhiti í Reykjavík var 5,5 gráður í nóvember. Það er 4,3 gráðum hlýrra en meðaltal áranna 1961 til 1990 og 3,2 gráðum yfir meðaltali síðustu tíu ára. Þar með er mánuðurinn sá annar hlýjasti frá upphafi samfelldra mælinga.

Hlýjastur var nóvember 1945, en þá var meðalhiti 6,1 gráða. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Mánuðurinn var sá hlýjasti í Grímsey í 141 ár. Þar var meðalhitinn 4,3 gráður. Á Akureyri var meðalhitinn 3,4 gráður og er það 3,7 yfir meðalhitanum 1961-1990 og 3,1 gráðum yfir meðalhita í nóvember síðustu tíu ár.

Hiti var talsvert yfir meðallagi á öllu landinu.Mynd/Vedur.is
Austlægar áttir voru ríkjandi í nóvember og tíðavar mjög milt. Hiti var talsvert yfir meðallagi á öllu landinu. Yfir heildina var úrkoma í meðallagi, en undir því víða um vestanvert landið. Suðaustan- og austanlands var úrkomumikið.

Á Teigarhorni var var nóvember sá hlýjasti en þar var meðalhitinn 5,5 gráður. Á Dalatanga var meðalhitinn 5,7 gráður sem er jafnhátt hæsta mánaðarmeðalhita í nóvember til þessa. Mánuðurinn var einnig annar hlýjasti nóvember á Stórhöfða, Hveravöllum og sá hlýjasti í Árnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×