Hálka og skafrenningur eru á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir eða hálka á Reykjanesbraut. Hálka er annars á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að enn sé Holtavörðuheiði lokuð en hægt er að fara hjáleið um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku en að þar sé þæfingsfærð. „Einnig er þæfingsfærð í Borgarfirði en snjóþekja og éljagangur á Vatnaleið og á norðanverðu Snæfellsnesi. Þungfært er um Heydal en annars er víða hálka eða snjóþekja á Vesturlandi.“
Á Vestfjörðum er snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Ísafjarðardjúpi og víða éljagangur eða snjókoma. Þæfingsfærð er á Barðaströnd en hálka á Kleifaheiði. Snjóþekja er á Klettshálsi, Mikladal og Hálfdán.
„Lokað og allur akstur bannaður á Þverárfjalli en snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum í Húnavatnssýslu. Flughálka með stórhríð er frá Sauðárkróki að Hofsósi. Ófært er frá Hofsósi að Siglufirði en þungfært í Út -Blönduhlíð. Ófært er á Öxnadalsheiði.
Hálka og skafrenningur er á Víkurskarði og á flestum vegum á Norðurlandi eystra en þæfingsfærð á Hólasandi.
Hálka er á Fagradal, Fjarðarheiði og Oddskarði og á vel flestum vegum á Austur- og Suðausturlandi. Flughálka er einnig á milli Víkur í Mýrdal og Steina,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að búast megi við minniháttar töfum í Hvalfjarðargöngum í nótt, aðfaranótt 18. desember 2014 frá klukkan 00:30 og fram undir morgun vegna vinnu við vegbúnað.
Holtavörðuheiðin enn lokuð
Atli Ísleifsson skrifar
