Töluverð ofankoma er víðast hvar á landinu og Akureyri þar ekki undanskilið. Færð er þar heldur slæm og skyggni lítið. Þá hefur snjór víða náð fótfestu á umferðarljósum og sést því illa á þau, en að sögn lögreglunnar á Akureyri hefur það ekki haft teljandi áhrif á umferð. Fólk fari varlega og engar tilkynningar um óhöpp borist þeim í dag.
Vaxandi veðurhæð er á Norðurlandi fram undir hádegi og víða 18-23 metrar á sekúndu yfir miðjan daginn. Dregur úr vindi og ofankomu í nótt. Norðan 10-18 og éljagangur á morgun. Frost 1-7 stig.
Meðfylgjandi myndband var tekið upp úr hádegi í dag við Glerárgötu á Akureyri en þar sést hve slæmt skyggnið er.
