Veðrið hefur leikið landsmenn grátt í morgun þar sem snjó hefur kyngt niður auk þess sem blæs hressilega. Verst er veðrið á Vestfjörðum þar sem meðal annars hefur verið felld niður kennsla í grunnskólunum á Ísafirði, Bolungarvík og Hólmavík.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru margir hverjir lengi á leið sinni til vinnu í Skaftahlíð í morgun. Starfsmaður Vísis í Hafnarfirði var rúman hálftíma á leiðinni í Hlíðarnar og annar úr Rimahverfinu í Grafarvogi var fjörutíu mínútur á leiðinni.
Töluverð bið var eftir leigubílum á níunda tímanum í morgun en sú bið hafði minnkað töluvert á tíunda tímanum. Þá breyttu einstaka hjólreiðakappar ekki útaf vananum og hjóluðu til vinnu eins og sjá má á myndinni að ofan. Umræddur hjólreiðakappi var vopnaður skíðagleraugum og virtist ekki láta færðina á sig fá.
Varstu lengi á leiðinni í vinnuna í dag? Lentirðu í óhöppum eða ævintýrum? Segðu okkur frá ritstjorn@visir.is.
