Fótbolti

Fanndís ætlar að halda níunni heitri fyrir Margréti Láru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir fagnar sigurmarki sínu á móti Kína í gær.
Fanndís Friðriksdóttir fagnar sigurmarki sínu á móti Kína í gær. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
Fanndís Friðriksdóttir var hetja íslenska kvennalandsliðsins í gærkvöldi þegar liðið tryggði sér sæti í bronsleiknum á Algarve-mótinu í Portúgal með 1-0 sigri á Kína. Íslenska liðið vann tvo síðustu leikina sína í riðlinum og tryggði sér leik um þriðja sætið við Svíþjóð á morgun.

„Þetta er geggjað hjá okkur. Við erum að ná næstbesta árangrinum okkar á Algarve-mótinu og það er því ekki hægt annað en að vera sáttur með þetta,“ sagði Fanndís en íslenska liðið náði best 2. sætinu fyrir þremur árum.

„Það var mikill léttir að ná inn þessu sigurmarki og við áttum þetta líka skilið,“ sagði Fanndís en hún skoraði sigurmarkið beint úr hornspyrnu í uppbótartíma.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fanndís skorar sigurmark á móti Kína því hún skoraði einnig eina markið í leik gegn þeim kínversku á Algarve-mótinu fyrir tveimur árum.  „Ég er komin með tök á Kínverjunum," sagði Fanndís hlæjandi en fyrra sigurmarkið var jafnframt hennar fyrsta fyrir íslenska A-landsliðið.

Þetta var fyrsta hornið sem hún tók í leiknum. Fanndís er komin í níuna í fjarveru markadrottningarinnar Margrétar Láru Viðarsdóttur en þær eru báðar úr Eyjum.

„Ég er ekki frá því að það hafi hjálpað eitthvað. Það þarf að halda þessari níu lifandi fyrst að Margrét Lára er farin í barneignir. Ég er að halda henni heitri þar til að hún kemur aftur,“ sagði Fanndís í léttum tón. Hún segir Frey þjálfara hafa dreift álaginu vel á mótinu. „Við erum allar ferskar fyrir leikinn á móti Svíþjóð,“ sagði Fanndís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×