Skoðun

Alþingi í sama farið

Kári Jónasson skrifar
Þegar nýtt þing kom saman í fyrrasumar að loknum alþingiskosningum höfðu sumir þingmenn á orði að nú væri komið nýtt þing með mörgum nýjum þingmönnum og þörf væri á að breyta umræðuhefðinni í þingsal.

Þessar hugmyndir skutu líka upp kollinum í haust þegar þing kom saman á ný, en hvað gerist svo? Þingheimur er fallinn í sömu umræðuhefðina, en nú er sú breyting á að þeir sem þrösuðu mest þegar stjórn Jóhönnu var við völd, sitja nú við völd, en fyrrverandi stjórnarmeirihluti hefur að manni sýnist tekið upp nákvæmlega sömu vinnubrögðin og stjórnarandstaðan fyrir ári, – er það dapurlegt í meira lagi.

Þið þingmenn verðið að gæta virðingar ykkar og færa umræðuhefðina upp á annað plan en okkur almenningi þessa lands, háum og lágum, hefur verið boðið upp á að undanförnu.

Ég er ekki að tala um efnisatriði og afstöðu til einstakra mála, heldur hvernig þingmenn haga sér í þingsal.

Mér finnst hlutverk háttvirts þingforseta, bæði nú og í fyrra hálf aumkunarvert, svo ekki sé meira sagt. Það er eiginlega sama hvað hann tekur til bragðs og sama hvað hann segir og reynir að bæta umræðuhefðina, – ekkert breytist – fólk fær meiri og meiri skömm á þinginu. Það verður bara að segja þetta eins og er.

Þingmenn vísa oft til fjölmiðla þegar þessi mál ber á góma og kenna þeim um hvernig komið er með álit þjóðarinnar á háttvirtu Alþingi. Þeir ættu hins vegar að líta í eigin barm, því fjölmiðlar eru aðeins að spegla ástandið sem við þeim blasir í þingsölum, og reyndar getur almenningur nú á dögum fylgst nákvæmlega með hvað er gerast þar innan dyra, vegna beinna útsendinga frá Alþingi.

Hafa þingmenn kannski ekki áttað sig á að fjöldi manna fylgist með umræðum á þinginu á degi hverjum, – ekki síst þegar von er á átökum um einstök mál?

Fjölmiðlar reyna hins vegar eftir bestu getu að skýra frá því sem fréttnæmt er hverju sinni, og lái þeim sem hver sem vill.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×