Erlent

Þúsundir bíða eftir að fá hjálp

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Íbúar í Obrenovac, sem er 40 km vestan við Belgrad, höfuðborg Serbíu, vaða vatnselginn.
Íbúar í Obrenovac, sem er 40 km vestan við Belgrad, höfuðborg Serbíu, vaða vatnselginn. Vísir/AFP
Á flóðasvæðunum á Balkanskaga biðu þúsundir í gær uppi á þökum húsa sinna eftir björgun. Yfirvöld í Bosníu-Hersegóvínu og Serbíu segja flóðin sem þar hafa verið undanfarna daga þau verstu frá því að mælingar hófust fyrir 120 árum. Í gær var greint frá því að að minnsta kosti þrír hefðu drukknað.

Í Serbíu hefur neyðarástandi verið lýst yfir í sextán borgum. Í Bosníu-Hersegóvínu hafa hús grafist undir aurskriðum í fjölda borga og bæja. Víða er rafmagnslaust á flóðasvæðunum. Sveitir á vegum Evrópusambandsins, sem taka þátt í björgunarstörfunum í Bosníu-Hersegóvínu, sögðu í gær að hvorki þær né innlendar hersveitir kæmust á sum flóðasvæðin nema með flugi.

Í fréttum í gær var greint frá því að þyrlur hefðu ekki getað farið í loftið vegna lélegs skyggnis og sterkra vinda. Björgunarsveitir komust þess vegna ekki til margra bæja sem eru alveg einangraðir þar sem samgöngur hafa rofnað.

Yfirvöld í Serbíu sögðu að tekist hefði að bjarga 4.000 manns af flóðasvæðunum. Veðurfræðingar vöruðu við frekari flóðum. Spáð er enn meiri úrkomu og sterkum vindum.

Vladimir Pavlovic, sem starfað hefur fyrir serbnesku rétttrúnaðarkirkjuna á Íslandi, kveðst vona að ekki verði frekara manntjón vegna flóðanna. Hann segir fólk úr þorpum nálægt heimaslóðum hans hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

„Aðstoð hefur borist víða að, til dæmis komu 70 björgunarsveitarmenn með flugvél frá Rússlandi og þyrlur hafa komið frá Slóveníu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×