Snorri Steinn Guðjónsson skoraði sögulegt mark fyrir íslenska handboltalandsliðið í sigurleiknum á móti Alsír á HM í handbolta í gær. Fyrra mark Snorra í leiknum var nefnilega tvöfalt tímamótamark.
Snorri Steinn skoraði fyrra markið sitt með frábæru langskoti í fyrri hálfleik og það mark var bæði mark númer 300 hjá honum á stórmótum og mark númer 100 hjá honum á heimsmeistaramótum.
Snorri Steinn hefur eftir leikinn skorað 101 mark í 28 leikjum á HM sem gera 3,6 mörk að meðaltali en hann er jafnframt kominn með 301 mark í 78 leikjum á stórmótum sem gera 3,9 mörk að meðaltali.
Snorri Steinn er á sínu fimmta heimsmeistaramóti og á sínu þrettánda stórmóti en hann var fyrst með á HM í Portúgal fyrir tólf árum síðan.
Snorri varð í gær þriðju leikmaðurinn til að skora þrjú hundruð mörk á stórmótum á eftir þeim Guðjóni Val Sigurðssyni og Ólafi Stefánssyni.
Snorri Steinn er fimmti Íslendingurinn sem nær að skora hundrað mörk á HM en hinir sem hafa náð því eru Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson, Patrekur Jóhannesson og Alexander Petersson.
Snorri Steinn með tvöfalt tímamótamark á móti Alsír
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
