Frakkar áttu ekki í miklum vandræðum með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum á HM í handbolta í Katar en Frakkar unnu þrettán marka sigur á Argentínu, 33-20, í sextán liða úrslitunum í kvöld.
Frakkar höfðu rosalega yfirburði í leiknum en franska liðið var tíu mörkum yfir í hálfleik, 16-6, og argentínska liðið var aðeins búið að skora átta mörk eftir 28 mínútna leik.
Frakkar mæta Slóvenum í átta liða úrslitunum á miðvikudaginn en Slóvenar slógu Makedóníu út í gær.
Valentin Porte skoraði sex mörk fyrir Frakka og Guillaume Joli var með fimm mörk. Thierry Omeyer varði fimmtíu prósent skota sem komu á hann.
Frakkar breyttu stöðunni úr 6-3 í 14-5 á fjórtán mínútna kafla í fyrri hálfleik og var síðan 16-6 yfir í hálfleiks.
Franska liðið skoraði tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og var 21-8 yfir eftir átta mínútna leik í seinni hálfleiknum.
Frakkar voru síðan 26-11 yfir þegar hálfleikurinn var hálfnaður og úrslitin því löngu ráðin.
Frakkarnir sýndu styrk sinn í stórsigri á Argentínu
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
