Íslensku strákarnir rifu sig upp eftir magalendinguna gegn Tékkum og unnu þriggja marka sigur á sterku liði Egypta. Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti í 16-liða úrslitum mótsins þar sem liðið mætir Danmörku.
Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik á milli stanganna gegn Egyptum og sérfræðingarnir voru ánægðir við frammistöðu markvarðarins í gær.
„Þetta var besti leikur Björgvins Páls í mótinu,“ sagði Kristján og bætti við:
„Þótt hann hafi ekki varið mikið í fyrri hálfleik, þá varði hann mjög mikilvæg skot. Hann var flottur.“
Gaupi var á sama máli og talaði sérstaklega um einbeitinguna sem Björgvin sýndi í leiknum.
„Hann varði á mjög mikilvægum augnablikum og svo fannst mér líka eitt athyglisvert með hann og ég verð að nefna þetta; hann hélt einbeitingu allan leikinn. Það hefur stundum skort á það hjá honum,“ sagði Gaupi og talaði jafnframt um að Björgvin hafi ekki spilað jafn vel með landsliðinu í lengri tíma.
„Þetta er hans besta frammistaða með íslenska landsliðinu í langan tíma. Maður hélt að hann væri algjörlega týndur en hann er greinilega vaknaður og vonandi heldur hann áfram á sömu braut. Hann getur það.“
Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.