Austurríki mætir heimamönnum í Katar í 16-liða úrslitum HM í handbolta en það varð ljóst eftir tap fyrrnefnda liðsins gegn Makedóníu í lokaumferð B-riðils í dag.
Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 16-16, en Makedónía tók snemma völdin í þeim síðari og vann nokkuð þægilegan sigur að lokum, 36-31.
Katar mætti Hvíta-Rússlandi í A-riðli á sama tíma og vann sigur, 26-22. Heimamenn voru þó öruggir með annað sæti riðilsins fyrir leikinn. Makedónía mætir því Slóveníu í 16-liða úrslitum en síðarnefnda liðið hafnaði í þriðja sæti A-riðils.
Eftir sigur Túnis á Íran fyrr í dag var ljóst að Austurríki mátti ekki tapa með meira en þrettán marka mun og var aldrei hætta á því. Stærra tap hefði þýtt að Austurríki hefði dottið niður í fjórða sæti B-riðils og mætt heimsmeisturum Spánar í 16-liða úrslitum.
Makedónía byrjaði betur í leiknum en lærisveinar Patreks eru seigir og héldu í við andstæðinginn. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16-16 og Austurríkismenn tóku frumkvæðið á upphafsmínútum síðari hálfleiksins.
En leikurinn snerist við þegar Vytautas Ziura fékk að líta rauða spjaldið fyrir að slá í andlit andstæðings. Króatar komust yfir á ný og létu forystuna ekki af hendi eftir það.
Austurríkismenn áttu bæði í vandræðum með varnarleik og markvörslu Makedóníu og dómgæslu danska dómaraparsins, þar sem lærisveinar Patreks létu ítrekað reka sig af velli í tvær mínútur.
Makedóníumenn gengu á lagið og náðu sex marka forystu, 29-23, þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka og sigldu nokkuð öruggum sigri í höfn.
Kiril Lazarov var markahæstur í liði Makedóníu með níu mörk en hornamaðurinn Robert Weber hjá Austurríki með átta.
Króatía vann B-riðil með fullu húsi stiga eftir öruggan sigur á Bosníu, 28-21, í kvöld.
Tap hjá Patreki sem mætir Katar í 16-liða úrslitum
Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar

Mest lesið



Ótrúleg markasúpa í Katalóníu
Fótbolti



„Eins gott að þeir fari að fokking semja“
Körfubolti

Inter í undanúrslit
Fótbolti


Aþena vann loksins leik
Körfubolti

Chelsea skrapaði botninn með Southampton
Enski boltinn